Eiður Smári Guðjohnsen verður í leikmannahópi Tottenham í fyrsta sinn þegar liðið tekur á móti Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni síðdegis á morgun.
Ekki er gert ráð fyrir því að Eiður verði í byrjunarliðinu en þeir Jermain Defoe og Peter Crouch koma til með að leika í fremstu víglínu Lundúnaliðsins sem er í í 4. sæti deildarinnar með 42 stig, hefur tveimur stigum meira en Aston Villa sem er í 7. sæti.
Eiður lék síðast í ensku úrvalsdeildinni árið 2006 en hann var í herbúðum Chelsea í sjö ár þar sem hann lék 263 leiki og skoraði 78 mörk. Þar áður lék hann með Bolton en hann lék 78 leiki með liðinu og skoraði í þeim 23 mörk.