Fulham staðfesti í kvöld að framherjinn Andrew Johnson muni ekkert leika meira með liðinu á tímabilinu vegna meiðsla. Johnson gekkst undir aðgerð í Bandaríkjunum í gær og eftir hana tjáði Dr.Richard Steadman forráðamönnum Lundúnaliðsins frá því að leikmaðurinn ætti ekki afturkvæmt inn á völlinn á þessari leiktíð.
Johnson lék síðast með Fulham gegn Blackburn í síðasta mánuði en hnémeiðsli hafa verið að plaga sóknarmanninn skæða. Hann hefur aðeins náð að spila átta leiki með Fulham-liðinu á leiktíðinni og nú er ljóst að þeir verða ekki fleiri.