Harry Redknapp knattspyrnustjóri Tottenham telur að Eiður Smári Guðjohnsen geti leikið mikilvægt hlutverk með liðinu á lokaspretti ensku úrvalsdeildarinnar en Lundúnaliðið er í harðri baráttu um að ná fjórða sætinu í deildinni.
Eiður verður í leikmannahópi Tottenham í fyrsta sinn á morgun þegar liðið tekur á móti Aston Villa á White Hart Lane en búist er við því að hefji leik á bekknum og að þeir Jermain Defoe og Peter Crouch leiki í fremstu víglínu liðsins eins og í síðustu leikjum.
,,Ég sé fyrir mér að Eiður spili mikilvægt hlutverk með liðinu á lokasprettinum. Hann er sú tegund af leikmanni sem ég kann vel við. Hann sér heildarmyndina og allt í kringum sig,“ sagði Redknapp við fréttamenn í dag en Eiður er í láni hjá Tottenham frá Mónakó út leiktíðina.