Það er mikið undir í Liverpool borg í dag en klukkan 12.45 verður flautað til leiks Liverpool og Everton í ensku úrvalsdeildinni á Anfield. Þetta verður 213. rimma liðanna í efstu deild. Bæði lið hafa verið á góðu skriði undanfarnar vikur og eins og ávalt er búist við hörkuleik.
Everton hefur ekki fagnað sigri á Anfield frá því í september árið 1999 og þegar liðin áttust við á Goodison Park fyrr á leiktíðinni hafði Liverpool betur, 2:0, með mörkum frá Javier Mascherano og Dirk Kuyt.
Liverpool er ósigrað í síðustu 6 leikjum sínum í deildinni en lærisveinar David Moyes, stjóra janúarmánaðar í ensku úrvalsdeildinni, hafa ekki tapað síðustu 9 leikjum sínum í deildinni og hafa jafnt og þétt verið að fikra sig ofar á stigatöfluna.
,,Það er orðið langt síðan við unnum á Anfield og allir vita að þetta er einn erfiðasti völlurinn að fara á til að vinna. Tölfræðin er vissulega á móti okkur en við ætlum svo sannarlega að gera allt sem við getum til að fara með sigur af hólmi,“ segir Phil Neville, fyrirliði Everton.