Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal sagði eftir ósigur sinna manna gegn Chelsea á Stamford Bridge í dag að vonir liðsins um að hampa meistaratitlinum hefðu dvínað en hann neitar því að gefast í baráttunni við Chelsea og Manchester United.
Þetta var annað tap Arsenal í röð í deildinni en um síðustu helgi tapaði liðið á heimavelli fyrir Manchester United.
,,Það er erfitt að kyngja tapi eins og þessu þegar manni finnst lið sitt vera betri aðilinn. Chelsea-liðið varðist mjög vel allt til loka leiksins og ég verð að hrósa því fyrir það.
Eftir þessi úrslit hafa möguleikar okkar á titlinum dvínað en við munum berjast allt fram á síðasta leik á tímabilinu. Ég held að öll liðin geti tapað stigum. Nú verðum við bara að vinna okkar næsta leik og sjá hvar við stöndum,“ sagði Wenger.
Heil umferð er á dagskrá um miðja vikuna og tekur Arsenal á móti Liverpool á miðvikudaginn. Á sama tíma sækir Chelsea lið Everton heim og Manchester United leikur á útivelli gegn Aston Villa.