Gerrard: Náum þriðja sætinu af Arsenal

Steven Gerrard og félagar í Liverpool eiga góðu gengi að …
Steven Gerrard og félagar í Liverpool eiga góðu gengi að fagna þessa dagana. Reuters

Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, er bjartsýnn á að sínir menn hirði þriðja sætinu í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu ef þeim tekst að leggja Arsenal að velli á Emirates-leikvanginum í London annað kvöld.

Fimm stig skilja liðin að í þriðja og fjórða sæti en takist Liverpool að minnka þann mun í tvö stig verði það sínu liði næg hvatning til að fara alla leið og ná þriðja sætinu þegar upp verður staðið í vor.

Arsenal hefur aðeins fengið eitt stig í þremur síðustu deildaleikjum auk þess sem Stoke sló liðið útúr bikarnum. Liverpool hefur hinsvegar unnið fimm leiki og gert tvö jafntefli í síðustu sjö og haldið hreinu sex sinnum á þeim tíma.

„Ég er viss um að leikmenn Arsenal verða eins og særð dýr í leiknum gegn okkur. Þetta er stórleikur fyrir okkur og markmiðið er að knýja fram úrslit sem geta fært okkur nær þriðja sætinu. Við tökum einn leik í sinu, að sjálfsögðu er stóra markmiðið að lenda í einum af fjórum efstu sætunum, en ef Arsenal gefur okkur færi á að ná þeim, þá munum við gera það og vonandi stígum við stórt skref í þessum leik," sagði Gerrard við Irish Times.

„Við verðum að gera það sama og Manchester United og Chelsea gerðu gegn Arsenal, gefa þeim lítið svigrúm til að spila og beita skyndisóknum. Allir vita að ef leikmenn Arsenal fá tíma og svæði munu þeir ganga frá hvaða liði sem er. Við spilum ekkert sérstaklega um þessar mundir, satt best að segja, en undanfarnir leikir hafa snúist um að spila þéttan varnarleik og nýta marktækifærin sem gefast," sagði Gerrard.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert