Mamma skammaði mig

Mido vonast til að sýna sig og sanna á Upton …
Mido vonast til að sýna sig og sanna á Upton Park. Reuters

Egypski knattspyrnumaðurinn Mido segir að móðir sín hafi skammað sig ærlega fyrir að gangast undir það að spila með West Ham til vorsins fyrir aðeins 1.000 pund í laun á viku, eða um 200 þúsund krónur.

Mido er á láni frá Middlesbrough og samkvæmt samningi hans þar ætti hann að vera með 48 þúsund pund í vikulaun, 9.6 milljónir króna.

„Ég samþykkti að spila fyrir þessi laun og er eflaust einn lægst launaði fótboltamaðurinn í allri deildakeppninni. En satt best að segja voru launamálin algjört aukaatriði hjá mér. Stundum verður maður að horfa til framtíðar og ég tel mig vera að fjárfesta í sjálfum mér. Vissulega tapa ég umtalsverðu því ég ætti að fá 48 þúsund pund á viku. Þetta er mikil launalækkun og mamma skammaði mig, og reiddist mér mjög fyrir að ganga að þessu," sagði Mido við netmiðilinn sport.co.uk.

„En ég hef gert mörg mistök á ferlinum og veit að þetta var rétt ákvörðun hjá mér. Ég hef unnið mér inn miklar tekjur á undanförnum árum og nú er komið að því að sanna mig fyrir sjálfum mér og stuðningsmönnum West Ham," sagði Mido.

West Ham tekur á móti Birmingham í úrvalsdeildinni í kvöld, á Upton Park. Það verður fyrsti heimaleikur Midos með liðinu en hann tók þátt í tapleiknum gegn Burnley, 1:2, á  Turf Moor á laugardaginn.

Mido, sem verður 27 ára síðar í þessum mánuði, hefur spilað með Middlesbrough, Wigan og Tottenham í Englandi, Roma á Ítalíu, Marseille í Frakklandi, Celta Vigo á Spáni, Ajax í Hollandi, Gent í Belgíu og Zamalek í heimalandi sínu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert