Harry Redknapp knattspyrnustjóri Tottenham segist þurfa að finna leikmann í sínum röðum sem ráði við þá pressu að taka vítaspyrnu en Tottenham hefur ekki náð að nýta nema eina af fimm síðustu vítaspyrnum sem það hefur fengið.
Tom Huddlestone lét Jussi Jaaskelainen verja frá sér vítaspyrnu í leik Tottenham og Bolton í bikarnum í gær en Jermain Defoe var sviptur vítaskyttustöðunni þegar Capser Ankergren varði víti frá Defoe í viðureign Tottenham og Leeds í síðasta mánuði.
,,Það er ljóst að ég þarf að finna einhvern sem ræður við þá pressu að fara á vítapunktinn,“ segir Redknapp við enska blaðið The Sun í dag. ,,Ef við hefðum skorað úr vítaspyrnunni þá held ég að við hefðum farið með sigur af hólmi. Við höfum farið illa með vítin okkar í síðustu leikjum og það er ansi pirrandi,“ segir Redknapp en Tottenham og Bolton skildu jöfn á Reebok og þurfa að mætast aftur á White Hart Lane.
Það er spurning hvort Redknapp eigi ekki að líta til Eiðs Smára Guðjohnsen sem er vön vítaskytta með íslenska landsliðinu en Eiður sat sem fastast á varamannabekknum á sínum gamla heimavelli í gær.