Roy Hodgson, knattspyrnustjóri Fulham, sagði að sínir menn hefðu þurft að sýna sínar allra bestu hliðar til að knýja fram sigur á UEFA-meisturunum Shakhtar Donetsk frá Úkraínu, 2:1, í Evrópudeild UEFA í kvöld.
Þetta var fyrri viðureign liðanna á Craven Cottage í London, í 32ja liða úrslitum keppninnar, og ljóst að enska liðið á erfiðan leik fyrir höndum í Úkraínu. Zoltán Gera skoraði í byrjun leiks og Bobby Zamora gerði síðan stórglæsilegt sigurmark í seinni hálfleiknum.
„Shakhtar lék geysilega vel í fyrri hálfleik og kannski voru mínir menn dálítið smeykir gegn þeim og ekki tilbúnir til að halda boltanum eins vel og þeir eru vanir. En við tókum okkur verulega saman í andlitinu í seinni hálfleik. Við mætum ekki svona sterkum liðum í hverri viku og þurftum á öllu okkar að halda til að knýja fram sigurinn," sagði Hodgson við BBC.