Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Tottenham, sagði að rússneski framherjinn Roman Pavlyuchenko hefði loks sýnt sitt rétta andlit í gær. Rússinn fékk tækifæri gegn Wigan og nýtti það til fullnustu, skoraði tvívegis í 3:0 útisigri Tottenham.
Tottenham skaust með sigrinum uppí fjórða sæti deildarinnar, uppfyrir Manchester City og Liverpool, og er því á fullu í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu.
„Hann var mjög góður á æfingum í vikunni, að mínu mati bestur allra á æfingunum á fimmtudag og föstudag. Hann lagði hart að sér, sýndi frábært hugarfar, og það var magnað að sjá hann koma inná og skora tvö mörk. Roman er tæknilega séð leikmaður í hæsta gæðaflokki og alltaf líklegur til að skora mörk. Ég sagði honum að fara inná völlinn og sýna það sem hann hefði sýnt á æfingunum, og það gerði hann. Þetta var snilldar frammistaða," sagði Redknapp við sport.co.uk eftir leikinn við Wigan.
Eiður Smári Guðjohnsen er meðal þeirra sem eru í samkeppni við Pavluychenko um sæti í liði Tottenham og mátti gera sér að góðu að sitja á varamannabekknum allan leikinn.