Hélt að Cole væri að gefa upp öndina

Carlton Cole hefur komið sterkur inní lið West Ham á …
Carlton Cole hefur komið sterkur inní lið West Ham á ný. Reuters

David Gold, annar aðaleigenda enska knattspyrnufélagsins West Ham, segir að framherjinn Carlton Cole gangi á undan félögum sínum með frábæru fordæmi. Gold kveðst hafa haldið að Cole hefði hreinlega verið að gefa upp öndina eftir sigurleikinn gegn Hull á laugardaginn.

Cole er byrjaður að spila með West Ham á ný eftir nokkra fjarveru vegna meiðsla. Endurkoma hans hefur haft mikið að segja en Cole skoraði eitt markanna í 3:0 sigrinum á Hull á laugardaginn. Með tveimur sigrum á skömmum tíma er West Ham komið úr fallsæti og hefur styrkt stöðu sína verulega.

„Málin eru að snúast okkur í hag innan vallar. Tveir sigrar hafa verið okkur dýrmætir og við erum að byrja að vinna okkur útúr vandræðunum. Cole er frábært dæmi um  vilja leikmannanna. Eftir leikinn gegn Hull hélt ég að hann væri hreinlega að gefa upp öndina, hann náði varla andanum af þreytu. Hann hafði gefið gjörsamlega allt sitt í leikinn, var í góðu formi en ekki í leikæfingu.

Þetta er það sem ég vil sjá. Hann gaf 100 prósent í leikinn, og þessi sjón gefur manni vonina um að allt muni ganga upp. Ég hef verið andvaka við tilhugsunina um að við gætum fallið úr deildinni og ég veit að leikmennirnir hafa upplifað það sama," sagði Gold við Sky Sports.

Cole hefur nú skorað 9 mörk í 18 leikjum með West Ham í úrvalsdeildinni í  vetur. Hann hefur skorað í tveimur síðustu leikjunum, sigurleikjunum gegn Hull og Birmingham, en hann meiddist í nóvember og var þá frá keppni í rúma tvo mánuði.

West Ham á heldur betur erfitt verkefni fyrir höndum í kvöld þegar liðið sækir Manchester United heim á Old Trafford. Þeim leik var flýtt þar sem United mætir Aston Villa í úrslitaleik deildabikarsins á sunnudaginn kemur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka