Wayne Bridge, varnarmaður Manchester City, gaf út yfirlýsingu í dag og tilkynnti þar að hann gæfi ekki kost á sér í enska landsliðið í knattspyrnu.
Fyrir skömmu komst upp að John Terry, fyrrum samherji hans hjá Chelsea og fyrirliði enska landsliðsins til skamms tíma, hefði átt í ástarsambandi við þáverandi unnustu Bridge.
Yfirlýsingin frá Bridge hljóðar þannig:
„Ég hef hugsað mikið og lengi um stöðu mína í enska landsliðinu í knattspyrnu í kjölfarið á atburðum og fréttum undanfarinna vikna.
Það hefur alltaf verið mikill heiður að leika fyrir hönd Englands. En eftir mikla umhugsun tel ég að staða mín í landsliðshópnum sé óviðunandi og jafnvel óæskileg.
Mér þykir það leitt en vegna liðsins í heild og til að koma í veg fyrir óumflýjanlega athygli sem nærvera mín myndi valda hef ég ákveðið að gefa ekki kost á mér.
Ég tilkynnti þjálfaranum þessa ákvörðun mína í dag og ég óska landsliðinu alls hins besta í Suður-Afríku."
Fabio Capello, landsliðsþjálfari, hafði gert sér góðar vonir um að nýta krafta Bridge, sem hann hefur sagt að væri besti vinstri bakvörður Englands á eftir Ashley Cole, sem einmitt er meiddur um þessar mundir.
Wayne Bridge er 29 ára gamall, uppalinn í Southampton og lék þar til 23 ára aldurs. Hann gekk þá til liðs við Chelsea og var þar í sex ár en fór til Manchester City á síðasta ári.