Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður íslenska 21-árs landsliðsins í knattspyrnu, segir að sigurmarkið fyrir Reading gegn WBA í ensku bikarkeppninni í gærkvöld, 3:2, sé eitt fallegasta mark sem hann hafi skorað.
Gylfi skoraði markið eftir fimm mínútna leik í framlengingu en Reading hafði jafnað metin í 2:2 í uppbótartíma, á útivelli gegn einu toppliða 1. deildar. Reading er þar með komið í 8-liða úrslit bikarsins í fyrsta skipti í 83 ár og leikur þar við Aston Villa á heimavelli 7. mars.
Gylfi skrúfaði boltann yfir markvörðinn og í netið af rúmlega 20 metra færi. Hann er markahæsti leikmaður Reading á tímabilinu með 10 mörk.
„Þetta er eitt mitt albesta mark. Ég gerði líka fallegt mark gegn Burton fyrr í vetur en þetta var mikilvægara. Ég fékk boltann frá Church og hefði getað gefið hann áfram til hægri, en ég ákvað að skjóta og sem betur fer lá hann í netinu. Ég þurfi að skjóta með snúningi vegna þess hvernig boltinn kom til mín.
Ég hafði áður skotið í þverslána og hefði líka viljað sjá þann bolta liggja í netinu. En sigurinn er aðalatriðið og nú verðum við að einbeita okkur að deildaleiknum um helgina," sagði Gylfi í viðtali á vef Reading.