Tony Pulis, knattspyrnustjóri Stoke, stýrði frá því í dag að hann og Ryan Shawcross væru í sambandi við Aaron Ramsey, leikmann Arsenal, sem fótbrotnaði mjög illa þegar Shawcross braut á honum í leik liðanna á dögunum.
Pulis staðfesti ennfremur að Stoke myndi ekki áfrýja rauða spjaldinu sem Shawcross fékk og varnarmaðurinn fer því í þriggja leikja bann fyrir brottreksturinn. Ramsey verður hinsvegar frá keppni næsta hálfa árið eða svo.
„Það var afar mikilvægt að við kæmumst í samband við strákinn eins fljótt og mögulegt var og næðum að tala við hann. Við munum gera það áfram og vera í sambandi við hann á meðan hann er að ná sér," sagði Pulis við BBC í dag.
Shawcross fór grátandi af velli eftir atvikið og margir hafa gagnrýnt hann harkalega, en hinsvegar hafa fjölmargir leikmenn talað hans máli.
Shawcross kveðst ekki breyta sínum leikstíl þrátt fyrir þetta leiðinlega atvik. „Ég mun leggja mig allan 100 prósent fram í hverjum leik með Stoke, og mun gera það þegar ég byrja að spila á ný. Vonandi næ ég mér aftur á strik þegar ég er laus úr banninu. Stuðningsmenn okkar og fjölmargir aðrir hafa reynst mér frábærlega undanfarna daga," sagði Shawcross, sem var valinn í enska landsliðshópinn í fyrsta skipti nokkrum tímum eftir leikinn gegn Arsenal.