Einir tólf aðilar hafa sýnt áhuga á að kaupa enska knattspyrnufélagið Portsmouth, samkvæmt greiðslustöðvunarstjóranum Andrew Andronikou, sem sér nú um öll fjármál þess.
Þegar félög eru sett í greiðslustöðvun, tekur slíkur stjóri við rekstrinum og reynir að koma félaginu á réttan kjöl og í hendur vænlegra eigenda. Andronikou sagði við Sky Sports að engin tímapressa væri á sér en ljóst væri að margir hefðu áhuga á að eignast félagið.
„Það hafa í kringum tólf aðilar sýnt áhuga og nú þarf ég að kanna hvað stendur á bak við það. Fyrst þurfum við að skoða fjármögnun félagsins næstu mánuðina. Það eru engin tímatakmörk á þessu og við ætlum ekki að flýta okkur. Við viljum gera þetta vel og málið snýst um að koma félaginu í hendurnar á eiganda sem hugsar vel um það og sér til þess að það verði komið í góð mál eftir nokkra mánuði," sagði Andronikou.
Í máli hans kom ennfremur fram að ekki væri enn talið útilokað að úrvalsdeildin myndi falla frá níu stiga refsingunni. Samkvæmt reglum deildarinnar eru dregin níu stig af liðum ef þau fara í greiðslustöðvun. Þetta þýðir að barátta Portsmouth við að forða sér frá falli úr úrvalsdeildinni er næsta vonlaus.