Hermann: Ætlum aftur á Wembley

Hermann fagnar sigurmarkinu á Wembley fyrir tveimur árum ásamt félögum …
Hermann fagnar sigurmarkinu á Wembley fyrir tveimur árum ásamt félögum sínum. Reuters

Hermann Hreiðarsson, varnarjaxlinn frá Vestmannaeyjum, kveðst staðráðinn í að komast á ný með Portsmouth á Wembley en liðið mætir Birmingham í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar um hádegið á morgun, laugardag.

Hermann er einn af fimm sem eftir eru úr bikarmeistaraliði Portsmouth frá vorinu 2008. Hinir eru David James, Papa Bouba Diop, John Utaka og Nwankwo Kanu.

Hermann sagði í ítarlegu viðtali við netútgáfu Daily Star í kvöld að í öllum þeim þrengingum sem gengið hefðu yfir Portsmouth yrði það stuðningsmönnum liðsins gífurlega mikilvægt ef liðið kæmist aftur á Wembley. Sigur á Birmingham myndi tryggja það því undanúrslit bikarsins eru leikin á þjóðarleikvanginum í London.

„Ég var búinn að spila í heilan áratug í Englandi án þess að komast í námunda við Wembley. Svo spilaði ég allt í einu þrisvar þar á nokkrum mánuðum, í undanúrslitum bikarsins, úrslitaleiknum, og leikinn um Góðgerðaskjöldinn. Bikarsigurinn er toppurinn á mínum ferli. Eftir allt sem á undan er gengið í vetur væri magnað að komast aftur á Wembley, þó það væri bara í undanúrslitaleikinn. Það yrðu sárabætur, ef svo færi að við myndum falla úr deildinni ," sagði Hermann.

Hann kvaðst afar ánægður með stuðningsmenn Portsmouth. „Þeir hafa verið stórkostlegir enda þótt við höfum verið neðstir í deildinni í allan vetur. Það er sama hvert við förum, alls staðar mynda þeir frábæra stemmningu og fyrir vikið hefur alltaf verið jafn frábært að komast út á völlinn og spila fyrir félagið. Við höfum ekki getað haft nein áhrif á það sem hefur gerst utan vallar og höfum því einbeitt okkur að því að spila leikina.“

Portsmouth hefur verið svipt níu stigum í deildinni vegna greiðslustöðvunar og á fyrir vikið sáralitla möguleika á að halda sér í deildinni. Félagið hefur þó óskað eftir því að fá stigin aftur, enda þótt það séu litlir möguleikar á slíku.

„Það er að sjálfsögðu gífurlegt áfall ef þessi níu stig fara endanlega en samt eru nógu mörg stig eftir í pottinum til að við getum forðað okkur frá falli. Það þyrfti eitthvað mjög sérstakt til að það gerðist, það er langsóttur möguleiki, en við reynum. Kraftaverkin gerast," sagði Hermann.

Samningur hans við félagið rennur út í sumar og Hermann kvaðst lítið vita um hvað framtíðin bæri í skauti sér. „Ég veit ekki hvað bíður mín og afar fáir í félaginu vita hvert þeir stefna. Við verðum bara að bíða eftir því að nýr eigandi birtist og sjá þá hvað hann vill gera. Allir vonast eftir því að þetta komist í lag, við getum orðið að venjulegu fótboltafélagi á ný og nokkrar jákvæðar fréttir verið skrifaðar um Portsmouth.

Þessi peninga- og eigendamál, og núna greiðslustöðvunin, er búið að vera lengi í gangi. Allt sem við viljum er að vera í fótboltaliði sem við getum verið stoltir af. Vonandi byrja jákvæðu fréttirnar með sigri á Birmingham," sagði Hermann Hreiðarsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert