Rafael Benítez er örugglega ekki hátt skrifaður hjá stuðningsmönnum Liverpool eftir sögulegt tap liðsins gegn Wigan í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Þetta var fyrsti sigur Wigan gegn Liverpool í deildinni frá því liðið vann sér sæti á meðal þeirra bestu árið 2005.
,,Við lékum ekki vel og þá einkum í fyrri hálfleik. Viðhorf leikmanna var ekki gott en menn tóku sig aðeins á í seinni hálfleik. Það vantaði klókindi í leik liðsins og það voru of margir hlutir sem voru ekki í lagi hjá okkur. Við verðum að sýna betri karakter ef okkur á að takast að enda á meðal fjögurra efstu,“ sagði Benítez eftir leikinn.
Liverpool hefði með sigri náð fjórða sætinu í deildinni en liðið er í sjötta sæti, stig á eftir Tottenham og Manchester City sem hafa leikið færri leiki.