Gylfi besti spyrnumaður í Englandi

Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki fyrir Reading.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki fyrir Reading. Reuters

Í enska blaðinu The Guardian í gær var því haldið fram að besti spyrnumaðurinn í ensku knattspyrnunni um þessar mundir léki ekki í úrvalsdeildinni. Hann léki með Reading í 1. deild og héti Gylfi Þór Sigurðsson.

Þar er sagt að Steven Gerrard og fleiri stjörnur ættu að fylgjast með Gylfa og læra af honum. Þessi íslenski strákur eigi stóran þátt í magnaðri frammistöðu Reading í bikarkeppninni í vetur, og þá sérstaklega með þeim hæfileika sínum að hitta alltaf beint á félaga sína í hættulegum færum úr öllum uppstilltum atriðum, hornspyrnum og aukaspyrnum.

Með jöfnunarmarki sínu úr vítaspyrnu í uppbótartíma hefði þessi tvítugi Íslendingur jafnframt sýnt að hann væri góður undir álagi. Gegn Aston Villa á laugardag hefði hann sannað að hann væri ekki bara snjall í uppstilltum atriðum, því með sendingu sinni sem lagði upp annað mark liðsins hefði Gylfi sýnt að hann hefði líka yfirsýn, klókindi og tækni.

Í lokin er sagt að Reading myndi gera vel ef félaginu tækist að halda þessum strák hjá sér í sumar því hann væri dálítið sérstakur.

Gylfi verður á ferðinni með Reading í kvöld þegar Íslendingaliðið tekur á móti Derby County í 1. deildinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert