Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool segir að lið sitt eigi góða möguleika á að komast áfram í Evrópudeild UEFA þrátt fyrir tap gegn Lille í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitunum í Frakklandi í kvöld.
Liverpool tapaði, 1:0, og skoraði Eden Hazard sigurmarkið fimm mínútum fyrir leikslok.
,,Þetta var betri leikur að hálfu liðsins en leikurinn gegn Wigan. Viðbrögð leikmanna voru mjög jákvæð,“ sagði Benítez eftir leikinn en hann húðskammaði sína menn eftir 1:0 tap gegn Wigan á mánudagskvöld.
,,Ég er vonsvikinn með úrslitin en ég var ánægður með framlag leikmanna minna. Þeir lögðu sig alla í leikinn. Við mættum góðu liði á afar erfiðum velli og ég var að vonast til að við næðum að halda marki okkar hreinu en því miður tókst það ekki. Ég er bjartsýnn fyrir síðari leikinn á Anfield fyrir framan okkar frábæru stuðningsmenn,“ sagði Benítez.