Cesc Fabregas, fyrirliði Arsenal, verður ekki með gegn Hull City í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu um helgina og útlit er fyrir að fleiri forföll verði hjá Lundúnaliðinu.
Fabregas tognaði í læri um síðustu helgi, lék ekki með í 5:0 sigrinum gegn Porto í fyrrakvöld, og Arsene Wenger knattspyrnustjóri sagði að líkurnar á að hann léki gegn Hull væru um það bil 0,5 prósent.
Þá er Tomás Rosický tæpur vegna eymsla í nára og Bacary Sagna vegna ökklameiðsla en það skýrist á morgun hvort þeir verði leikfærir. Alex Song spilar ekki þar sem hann tekur út leikbann og William Gallas er frá sem fyrr vegna meiðsla.