Öll stóru liðin í Englandi eru nú orðuð við Joe Cole, leikmann Chelsea, eftir að það kvisaðist út í vikunni að hann myndi yfirgefa Lundúnaliðið í sumar.
Samkvæmt Daily Star hefur Cole aðeins verið boðin framlenging um eitt ár á sínum samningi, og það á 40 prósent lægri launum en nú. Það er aðeins talið þýða eitt, félagið vilji losna við hann.
Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United er sagður hafa verið aðdáandi Coles um árabil, sem og Harry Redknapp hjá Tottenham sem hafði pilt undir sinni handleiðslu hjá West Ham á sínum ´tima.
Liverpool, Manchester City og Arsenal eru öll sögð vera í viðbragðsstöðu, en sjálfur óski leikmaðurinn þess heitast að fara til Manchester United. Daily Star segir að nær fullvíst megi telja að Ferguson kræki í Cole í sumar.
Cole hefur átt erfitt uppdráttar hjá Chelsea undanfarin misseri, bæði vegna meiðsla, og síðan hefur hann fá tækifæri fengið í byrjunarliðið félagsins þegar hann hefur verið heill heilsu.
Cole er 28 ára gamall og kom til Chelsea frá West Ham árið 2003. Hann hefur spilað 299 leiki í úrvalsdeildinni með þessum tveimur félögum og á að baki 53 landsleiki fyrir England.