Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal telur að sigurinn gegn Hull í kvöld geti orðið til þess að liðið hampi Englandsmeistaratitlinum en Lundúnaliðið varð meistari síðast fyrir sex árum.
Arsenal bar sigurorð af Hull, 2:1, þar sem Nicklas Bendtner skoraði sigurmarkið í uppbótartíma og er Arsenal með jafnmörg stig og Chelsea í toppsæti deildarinnar.
,,Þetta er kannski ekki gott fyrir hjartað, en fyrir keppnina er þetta ekki slæmt,“ sagði Wenger eftir fimmta sigurleik Arsenal í röð í deildinni.
,,Við eigum átta leiki eftir, við erum í baráttunni og því ættum við ekki að hafa trúna? Við þurftum á þremur stigum að halda og við innbyrtum þau eftir að 90 mínúturnar voru liðnar. Mínir menn sýndu að þeir eru tilbúnir í titilbaráttuna,“ sagði Wenger.