Bresk skattayfirvöld staðfestu í dag að þau hefðu fallist á réttmæti þess að enska knattspyrnufélagið Portsmouth færi í greiðslustöðvun. Skatturinn hafði áður krafist þess að félagið yrði úrskurðað gjaldþrota.
Þar með mun ferli greiðslustöðvunarinnar fara í sinn eðlilega farveg og enska úrvalsdeildin mun formlega svipta Portsmouth 9 stigum, sem fylgir því að fara í greiðslustöðvun.
Andrew Andronikou, greiðslustöðvunarstjóri Portsmouth, sagði þó við BBC að félagið myndi reyna að hnekkja þeirri ákvörðun. Þetta væri í fyrsta sinn sem úrvalsdeildarfélag færi í greiðslustöðvun, þar með væri þetta í fyrsta sinn sem lið í deildinni væri svipt 9 stigum, og þar með væri full ástæða til að láta reyna á lögmæti þess.
Andronikou sagði ennfremur að greiðslustöðvuninni ætti að geta lokið á 6-8 vikum og eftir það yrði félagið vonandi komið á beina braut.
Þá hefur Andronikou staðfest að auðkýfingurinn Rob Lloyd, ákafur stuðningsmaður Portsmouth, færi fyrir hópi sem hefði áhuga á að kaupa félagið og þeir hefðu hist í gær.