Gylfi Þór Sigurðsson, sem hefur farið á kostum með enska 1. deildarliðinu Reading á leiktíðinni, er í hópi markahæstu leikmanna sem spila í deildinni. Gylfi hefur skorað 13 mörk í öllum keppnum og aðeins fimm leikmenn í deildinni hafa skorað fleiri mörk.
Gylfi tryggði Reading sætan sigur QPR í gærkvöldi með marki úr vítaspyrnu sem hann fékk sjálfur en hann hefur skorað 9 mörk í deildinni og 4 í bikarkeppninni. Hann er markahæsti leikmaður Reading á tímabilinu en næstur á eftir honum kemur Simon Church með 10 mörk.
Peter Whittingham úr Cardiff er sá leikmaður sem flest mörkin hefur skorað en hann hefur sett samtals 20 mörk á leiktíðinni. Michael Chopra, Cardiff, kemur næstur með 17 mörk eins og Darren Ambrose úr Newcastle.