Albert Riera, spænski kantmaðurinn hjá Liverpool, sendi landa sínum og knattspyrnustjóra félagsins, Rafael Benítez, heldur betur tóninn í útvarpsviðtali á Spáni í dag og lýsti því yfir að hann vildi komast strax burt frá enska liðinu, sem væri sökkvandi skip.
Helst til Rússlands, vegna þess að þar væri félagaskiptaglugginn nú opinn og tvö rússnesk lið hefðu sýnt sér áhuga.
Riera hefur aðeins verið níu sinnum í byrjunarliði Liverpool í vetur og aðeins einu sinni undanfarnar vikur, gegn Unirea í Evrópudeild UEFA.
„Hann lítur á sig sem algjöran yfirmann og hlustar ekki á aðra. Samræður við leikmenn eru nánast ekki fyrir hendi. Þegar maður er alheill, æfir vel og engin eru vandamál í gangi, en þjálfarinn segir samt ekki orð við mann, þá hlýtur það að vera eitthvað persónulegt," sagði Riera við Radio Marca.
„Liðið spilar illa og það þarf að breyta ýmsu. Stjórnandi sem sæi að ég spilaði illa, og hefði trú á mér, myndi segja mér hvað væri að. Það er sárast að Benítez skuli ekki segja orð," sagði Riera og kvaðst spenntur fyrir því að komast strax þangað sem opið væri fyrir félagaskipti.
„Sem stendur er aðeins Rússland opið. Tvö félög þar vilja fá mig og vegna þess hver staða mín er hjá Liverpool, hef ég hugleitt þetta mikið. Mig langar að komast á HM og til þess þarf ég að spila," sagði Riera og sendi Benítez pillu:
„Ef Manuel Pellegrini hættir hjá Real Madrid verður Benítez ekki maðurinn sem þeir vilja fá í staðinn. Hjá Real Madrid eiga menn að sigra og spila fallegan fótbolta í leiðinni. Liverpool er vissulega vinnusamt lið en það spilar ekki fallegan fótbolta."
Benítez keypti Riera af Espanyol fyrir 8 milljónir punda haustið 2008. Hann er 27 ára gamall, fæddur og uppalinn á sólareynni Mallorca og lék þar með heimaliðinu til ársins 2003. Hann var með Bordeaux í Frakklandi í tvö ár og síðan Espanyol í þrjú ár en var um skeið í láni hjá Manchester City árið 2006. Riera hefur spilað 16 landsleiki fyrir Spánverja og skorað í þeim 4 mörk.