Frækinn sigur Fulham á Juventus

Zoltán Gera og Dickson Etuhu fagna einu marka Fulham í …
Zoltán Gera og Dickson Etuhu fagna einu marka Fulham í kvöld. Reuters

Enska liðið Fulham gerði það sem fæstir áttu von á, sneri blaðinu við gegn Juventus og vann leik liðanna 4:1 í 16-liða úrslitum Evrópudeildar UEFA á Craven Cottage í London í kvöld.

Juventus vann fyrri leik liðanna á Ítalíu, 3:1, og komst yfir í byrjun leiks í kvöld þegar David Trezeguet skoraði. En Fulham svaraði heldur betur fyrir sig, Bobby Zamora jafnaði, Zoltán Gera skraði tvö mörk og þá var jafnt samanlagt, 4:4. Varamaðurinn Clint Dempsey skoraði svo markið sem réð úrslitum, 7 mínútum fyrir leikslok, og Fulham vann 5:4 samanlagt.

Tveir leikmenn Juventus voru reknir af velli, Fabio Cannavaro á 25. mínútu og Jonathan Zabina í lok leiksins.

2. Ítalirnir fengu óskabyrjun því í fyrstu sókn leiksins skoraði David Trezeguet eftir fyrirgjöf frá Hasan Salihamidzic, 0:1. Juventus var þar komið í 4:1 samanlagt og staða Fulham orðin afar tæp.

9. Fulham var ekki lengi að jafna metin. Á 9. mínútu sendi Paul Konchesky fyrir mark Juventus, Bobby Zamora sneri Fabio Cannavaro glæsilega af sér og skoraði með góðu skoti. Staðan 1:1 og 2:4 samanlagt.

25. Fabio Cannavaro, varnarmaðurinn reyndi hjá Juventus, fékk rauða spjaldið á 25. mínútu fyrir að brjóta á Zoltán Gera sem var að sleppa í gegnum vörn ítalska liðsins.

39. Manni fleiri gerði Fulham harða hríð að marki Juventus og á 39. mínútu skoraði Zoltán Gera af stuttu færi eftir sendingu frá Simon Davies. Staðan 2:1 og 3:4 samanlagt. Á næstu mínútum á undan átti Fulham skot í bæði stöng og þverslá.

45. Flautað til hálfleiks eftir stórsókn Fulham seinni hluta hálfleiksins. Staðan 2:1 og allt galopið.

48. Dæmd var vítaspyrna á Juventus þegar Diego fékk boltann í hönd. Zoltán Gera skoraði af öryggi sitt annað mark. Frábær byrjun Fulham í seinni hálfleik. Staðan orðin 3:1 og þar með 4:4 samanlagt.

83. Varamaðurinn Clint Dempsey bætti við fjórða marki Fulham með glæsilegu skoti. Staðan 4:1 fyrir Lundúnaliðið og 5:4 samanlagt.

90. Ekki batnaði staða Juventus þegar venjulegur leiktími var að renna út því þá fékk annar leikmaður liðsins, Jonathan Zebina, rauða spjaldið, fyrir að láta skapið hlaupa með sig í gönur og sparka í Damien Duff.

Byrjunarliðin voru þannig skipuð:

Fulham: Schwarzer, Kelly, Hughes, Hangeland, Konchesky, Duff, Baird, Etuhu, Davies, Gera, Zamora.
Varamenn: Zuberbuhler, Nevland, Riise, Dempsey, Smalling, Dikgacoi, Marsh-Brown.
Juventus: Chimenti, Salihamidzic, Zebina, Cannavaro, Grosso, Camoranesi, Felipe Melo, Sissoko, Diego, Candreva, Trezeguet.
Varamenn: Pinsoglio, Iaquinta, Del Piero, Poulsen, Grygera, De Ceglie, Marrone.

David Trezeguet fagnar eftir að hafa komið Juventus yfir á …
David Trezeguet fagnar eftir að hafa komið Juventus yfir á 2. mínútu í kvöld. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert