Carlo Ancelotti knattspyrnustjóri Chelsea sagði eftir jafntefli sinna manna gegn Blackburn í dag að möguleikar liðsins á að vinna deildina hefðu dvínað en eftir leiki helgarinnar er Chelsea í þriðja sæti, fjórum stigum á eftir toppliði Manchester United, en á leik til góða.
Þetta er í fyrsta sinn frá því í 2. umferð deildarinnar sem Chelsea er ekki í einu af tveimur efstu sætunum en Chelsea mætir Portsmouth á Fratton Park á miðvikudaginn.
,,Það verður erfitt að vinna deildina núna en það er þó mögulegt ennþá. Við erum mjög vonsviknir því við töpuðum tveimur afar dýrmætum stigum. Við undirbjuggum okkur vel fyrir leikinn og reyndum að eyða út leiknum á móti Inter. Það gekk vel í klukkutíma,“ sagði Ancelotti.
,,Manchester United er á toppnum en við verðum bara að leggja harðar að okkur og reyna að gleyma þessum úrslitum sem fyrst.“