Jamie Carragher, varnarjaxlinn hjá Liverpool, segir að Manchester United hefði ekki átt að fá vítaspyrnuna í leik liðanna í gær og að ummæli Alex Fergusons um að Javier Mascherano hefði átt að fá rautt spjald væru út í hött.
Ferguson sagði eftir leikinn að Howard Webb dómari hefði átt að reka Mascherano af velli fyrir umrætt brot. Valencia hefði verið kominn í dauðafæri og Carragher væri ekki nógu fljótur til að eiga möguleika á að hindra hann í að skjóta á markið.
„Þetta átti aldrei að vera vítaspyrna, brotið átti sér stað utan vítateigs, og svo gat þetta aldrei orðið rautt spjald því ég hefði náð að stöðva Valencia," sagði Carragher við Liverpool Echo.
Carragher kveðst sannfærður um að lið sitt geti náð fjórða sætinu þrátt fyrir tapið en Tottenham og Manchester City hafa nú náð forskoti í þeirri baráttu. „Auðvitað höfum við fulla trú á því að við náum fjórða sætinu. Hin tvö liðin eiga erfiða leiki eftir og við verðum að nýta okkur það að vinna okkar leiki á meðan þau tapa stigum," sagði Carragher.