Frammistaða Eiðs Smára Guðjohnsens með Tottenham gegn Stoke á laugardaginn er enn til umræðu í enskum fjölmiðlum og nú hefur Sky Sports útnefnt mark hans í leiknum það besta í úrvalsdeildinni um helgina.
Það er Chris Kamara, fyrrum leikmaður og knattspyrnustjóri, sem er sérstakur sérfræðingur Sky Sports og útnefnir eftir hverja helgi það sem stendur uppúr í úrvalsdeildinni.
Um val sitt á marki helgarinnar segir Kamara:
„Carlos Tévez og Jamie O'Hara skoruðu frábær mörk en það sem yljaði mér mest var fyrra mark Tottenham gegn Stoke sem Eiður Guðjohnsen skoraði. Hann er með sérstaka hæfileika og það er frábært að sjá hann aftur í Englandi. Það er aldrei auðvelt að laga sig aftur að hraðanum í úrvalsdeildinni, sérstaklega þegar menn þurfa ítrekað að koma inná sem varamenn. En hvernig hann hélt Abdoulaye Faye fyrir aftan sig og skoraði bendir til þess að hann sé virkilega tilbúinn til að láta að sér kveða. Hann er í liði sem getur brotið múrinn og komist í hóp fjögurra efstu og hefur fulla ástæðu til að vera ánægður með sjálfan sig."
Kamara valdi Park Ji-sung hjá Manchester United sem leikmann helgarinnar, Manchester United sem lið helgarinnar og Alex Ferguson sem knattspyrnustjóra helgarinnar. Leikur helgarinnar var að hans mati viðureign Manchester United og Liverpool, en mistök helgarinnar voru brottvísunin á Dean Whitehead, leikmanni Stoke, í leiknum við Tottenham.