Eiður Smári Guðjohnsen sagði eftir sigur Tottenham á Fulham, 3:1, í ensku bikarkeppninni í gærkvöld að liðið væri nógu gott til að vinna bikarinn og ná fjórða sæti úrvalsdeildarinnar.
„Við eigum góða möguleika á að ná okkar markmiðum á tímabilinu. Við eigum erfiða leiki á lokasprettinum en erum með góðan leikmannahópi og ég er afar ánægður með að vera hluti af honum. Þetta er sterkur hópur og við höfum sýnt það bæði í deildinni og bikarnum. Staða okkar er góð í augnablikinu, og lokastaðan mun sýna hvar við verðskuldum að vera," sagði Eiður við Sky Sports.
„Það munaði miklu að David Bentley skyldi skora snemma í seinni hálfleiknum. Eftir það settum við mikla pressu á Fulham og það tryggði okkur sigurinn," sagði Eiður sem lék allan leikinn, spilaði vel og skoraði þriðja mark Tottenham í leiknum.