Tony Mowbray var í dag rekinn úr starfi knattspyrnustjóra hjá skoska knattspyrnuliðinu Celtic. Meistararnir steinlágu fyrir St.Mirren í skosku úrvalsdeildinni í gær, 4:0, og það var kornið sem fyllti mælinn hjá forráðamönnum félagsins sem ákváðu í dag að segja Mowbray upp.
Celtic er tíu stigum á eftir erkifjendunum í Rangers og vonir liðsins um að endurheimta meistaratitilinn fóru endanlega út um þúfur í gærkvöld.
Mowbray tók við stjórastöðunni af Gordon Strachan síðastliðið sumar en áður var hann við stjórnvölinn hjá WBA.