Redknapp: Meiðsli Hermanns draga úr sigurgleðinni

Hermann Hreiðarsson liggur sárþjáður á vellinum í dag.
Hermann Hreiðarsson liggur sárþjáður á vellinum í dag. Reuters

Flest bendir til þess að Hermann Hreiðarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, hafi slitið hásin í fæti í leik Portsmouth gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í dag. Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Tottenham, talaði meira um meiðsli Hermanns en sigur sinna manna í leikslok.

Hermann var borinn sárþjáður af velli í seinni hálfleiknum á White Hart Lane og þurfti að fá súrefni á vellinum.

Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Tottenham, sem keypti Hermann til Portsmouth á sínum tíma, sagði við fréttamenn að meiðsli Hermanns hefðu dregið úr sigurgleði sinni.

„Hermann er einn sá besti strákur og fagmaður sem ég hef nokkru sinni kynnst og þetta lítur útfyrir að hafa verið mjög alvarlegt. Allir leikmennirnir í kring sögðust hafa heyrt eins og byssuskot þegar hásinin hrökk í sundur. Ég finn virkilega til með honum, og með Portsmouth," sagði Redknapp.

Sé rétt að um slitna hásin sé að ræða er ljóst að Hermann spilar ekki meira á þessu keppnistímabili og óvíst er að hann verði tilbúinn í slaginn þegar það næsta byrjar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert