Ekkert virðist geta komið í veg fyrir að Newcastle endurheimti sæti sitt í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir að liðið lagði keppinautana í Nottingham Forest, 2:0, á St. James' Park í kvöld.
Fyrir leikinn munaði 10 stigum á liðunum í fyrsta og þriðja sæti og Forest hefði með sigri getað hleypt meira lífi í baráttuna um tvö efstu sætin. Nú er Newcastle hinsvegar komið 13 stigum framúr Forest, sem á sex leiki eftir. Newcastle þarf því aðeins sex stig úr síðustu sjö leikjunum til að gulltryggja endurkomu sína í hóp þeirra bestu.
Þeir röndóttu eru með 83 stig, WBA er með 79 stig og Forest er með 70 stig í þriðja sætinu.
Eftir markalausar 70 mínútur kom Shola Ameobi heimamönnum yfir og José Enrique innsiglaði sigurinn með marki í uppbótartíma.