Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal er bjartsýnn á að spænski miðjumaðurinn og fyrirliðinn Cesc Fabregas verði klár í slaginn gegn sínum gömlu félögum en annað kvöld tekur Arsenal á móti Evrópu- og Spánarmeisturum Barcelona í fyrri rimmu liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
Fabregas meiddist á hné í 1:1 jafntefli Arsenal á móti Birmingham á laugardaginn en meiðslin reyndust ekki alvarleg og ætti Spánverjinn snjalli því að geta leikið listir sínar á Emirates Stadium annað kvöld.
Fabregas hefur leikið sérlega vel með Lundúnaliðinu á tímabilinu og hefur skorað 18 mörk fyrir félagið í öllum keppnum og verið prímusmótor liðsins.