Harry Redknapp knattspyrnustjóri Tottenham hefur úr öllum sínum fjórum framherjum að velja fyrir leik liðsins gegn Sunderland á Leikvangi ljóssins á morgun. Jermain Defoe hefur jafnað sig af meiðslum og verður í leikmannahópnum eftir að hafa misst af síðustu þremur leikjum.
Það verður höfuðverkur fyrir Redknapp að velja framherjaparið sem mætir Sunderland. Defoe hefur skorað 23 mörk á leiktíðinni og þeir Roman Pavlyuchenko, Peter Crouch og Eiður Smári Guðjohnsen gera allir tilkall í liðið en þeir hafa staðið sig vel í síðustu leikjum og hafa allir verið á skotskónum.
Nokkuð er um forföll í Tottenham-liðinu. Miðvörðurinn sterki Michael Dawson er meiddur í hásin og verður ekki með, Tom Huddlestone hefur ekki náð sér af meiðslum, Vedran Corluka glímir við ökklameiðsli, Aaron Lennon er enn að jafna sig og þeir Jermain Jenas og Jonathan Woodgate og Ledley King eru á sjúkralistanum. Þá er líklegt að Wilson Palacios verði fjarri góðu gamni vegna meiðsla.