„Við erum taldir líklegastir til að vinna deildina núna. Eðlilega. En það eru fimm leikir eftir svo við verðum að halda okkur á jörðinni,“ sagði Carlo Ancelotti eftir sigur hans manna í Chelsea á Manchester United í dag.
„Við erum ánægðir en það er ekkert öruggt enn svo við verðum að halda ró okkar og einbeita okkur að hverjum leik fyrir sig. Viðbrögðin hafa verið góð hjá mínum mönnum eftir tapið gegn Inter. Leikmennirnir hafa sýnt styrk sinn,“ bætti Ancelotti við.
Hann sagði meiðsli Drogba hafa haft áhrif á það að Fílabeinsstrendingurinn var á varamannabekknum en ekki í byrjunarliði. Drogba kom inná í leiknum og skoraði sigurmarkið.
„Það var erfitt að setja Drogba á bekkinn en hann skildi þetta vel því hann hefur ekki getað æft af fullum krafti í þessari viku,“ sagði Ancelotti.