Chelsea tyllti sér í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag með 2:1 sigri á Manchester United á Old Trafford. Joe Cole og Didier Drogba komu Chelsea í 2:0 en Federico Macheda svaraði fyrir United. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
Chelsea er nú með 74 stig en United er skammt undan með 72 stig. Arsenal er með 68 stig en á leik til góða.
Chelsea komst yfir á 20. mínútu með marki frá Joe Cole. Florent Malouda hljóp með boltann upp að endamörkum vinstra megin og sendi hann meðfram jörðinni á Cole sem skoraði með laglegri hælspyrnu af stuttu færi. Chelsea því komið með verðskuldaða forystu eftir að hafa verið ívið betri aðilinn fyrstu 20 mínúturnar.
Liðin gerðu bæði tilkall til þess að fá vítaspyrnu skömmu eftir markið en Mike Dean, sem dæmt hefur flest víti allra dómara deildarinnar í vetur, stóðst freistinguna í bæði skiptin og það virtist vera rétt mat.
Chelsea hélt forystunni til loka fyrri hálfleiks og það með verðskulduðum hætti. Paul Scholes og Gary Neville nældu sér í gult spjald hvor með harkalegum tæklingum.
Paula Ferreira slapp inn fyrir vörn United hægra megin á 48. mínútu en sendi boltann naumlega framhjá vinstri markstönginni.
Heimamönnum óx ásmegin í seinni hálfleik og Dimitar Berbatov átti skalla rétt framhjá markinu eftir fyrirgjöf frá Ryan Giggs eftir klukkutíma leik.
Didier Drogba kom inná sem varamaður fyrir Nicolas Anelka á 69. mínútu. United gerði tvöfalda skiptingu tveimur mínútum síðar en þá komu Federico Macheda og Nani inná í stað Ji-Sung Park og Paul Scholes.
Salomon Kalou kom inná í stað markaskorarans Joe Cole á 74. mínútu.
Didier Drogba bætti við öðru marki fyrir Chelsea á 79. mínútu eftir stungusendingu frá hinum varamanninum, Kalou. Markið hefði þó ekki átt að standa þar sem Drogba var rangstæður.
Federico Macheda náði að minnka muninnn fyrir United á 81. mínútu og staðan því 2:1. Nani átti sprett fram vinstri kantinn og sendi boltann inní markteig þar sem Petr Cech sló boltann í Macheda og af honum fór boltinn í netið. Annað mark í boði varamanna.
Michael Ballack kom inná í stað Deco á 82. mínútu. Darron Gibson kom inná í stað Darren Fletcher fjórum mínútum síðar.
Berbatov átti skot að marki úr teignum á 90. mínútu en það var slakt og auðvelt viðureignar fyrir Cech.
Manchester United: Van der Sar; Neville, Ferdinand, Vidic, Evra; Fletcher, Scholes; Valencia, Park, Giggs; Berbatov.
Varamenn: Kuszczak, Carrick, Nani, Rafael Da Silva, Macheda, Gibson, De Laet.
Chelsea: Cech; Ferreira, Terry, Alex, Zhirkov; Mikel; J Cole, Lampard, Deco, Malouda; Anelka.
Varamenn: Turnbull, Drogba, Ballack, Kalou, Sturridge, Belletti, Bruma.