Gylfi valinn leikmaður mánaðarins

Gylfi Þór Sigurðsson með viðurkenningu sína.
Gylfi Þór Sigurðsson með viðurkenningu sína. www.readingfc.co.u

Gylfi Sigurðsson leikmaður Reading var í dag útnefndur leikmaður marsmánaðar í ensku 1. deildinni í knattspyrnu. Gylfi hefur farið á kostum með Reading-liðinu á leiktíðinni og hefur frammistaða hans vakið mikla athygli og eru lið í ensku úrvalsdeildinni með hann undir smásjánni.

Gylfi hefur skorað 15 mörk fyrir Reading í vetur og hann gerði fimm af þeim í marsmánuði. Tvö þeirra voru sigurmörk á lokamínútum leikja, gegn QPR og Leicester, eitt var í byrjun leiks gegn WBA, og svo skoraði Gylfi bæði mörkin í 2:0-sigri á Bristol City. 

Auk Gylfa voru tilnefndir þeir: Graham Dorrans, miðjumaður WBA, Peter Lövenkrands, sóknarmaður Newcastle, og Adel Taarabt, miðjumaður QPR.

Gylfi verður í eldlínunni í dag með Reading en þá sækir liðið lærisveina Roy Keane í liði Ipswich heim en Reading hefur verið á gríðarlegri siglingu síðustu vikurnar og eygir möguleika á að komast í aukakeppnina um eitt laust sæti í úrvalsdeildinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert