Wenger: Dýrmætur sigur

Arsene Wenger og aðstoðarmaður hans, Pat Rice, fallast í faðma …
Arsene Wenger og aðstoðarmaður hans, Pat Rice, fallast í faðma þegar Bendtner skorar sigurmarkið gegn Wolves. Reuters

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal hrósaði sínum mönnum fyrir seiglu eftir að þeir knúðu fram nauman sigur á Wolves, 1:0, í dag með marki frá Nicklas Bendtner í uppbótartíma.

Fyrir vikið er Arsenal enn á hælum toppliðanna, er með 71 stig, Manchester United 72 og Chelsea 74 þegar fimm umferðum er ólokið.

„Þetta er dýrmætur sigur. Úlfarnir eru með gott lið, frábæran markvörð og vörðust mjög vel. Við fengum okkar færi en nýttum þau ekki. Eftir því sem líður á svona leik fá mótherjarnir meira sjálfstraust. Þeir vörðust af seiglu og klókindum og við þurftum mikla þolinmæði. Að lokum knúðum við fram þrjú stig. Aðalmálið í næsta leik eftir að hafa spilað í Meistaradeildinni er að ná að sigra, og það tókst okkur í dag," sagði Wenger við Sky Sports.

„Við höfum gert þetta hvað eftir annað í vetur, skorað seint í leikjunum, og þetta var einfalt, góð fyrirgjöf og gott mark. Nú munar þremur stigum á okkur og Chelsea og við erum stigi á eftir United. Þetta er orðið mjög áhugavert og öll liðin eiga erfitt prógramm eftir. Við munum berjast til loka," sagði Wenger.

Úlfarnir voru afar óhressir með að Karl Henry, leikmanni þeirra, skyldi vera vísað af velli 20 mínútum fyrir leikslok fyrir brot á Tomás Rosický. Mick McCarthy sagði að ákvörðun dómarans hefði verið hreint fáránleg og Wenger tók undir að brotið hefði ekki verið alvarlegt eða af ásetningi. „Hann var óheppinn að fella Rosický, þetta var ekki ásetningur," sagði Wenger.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert