Gianfranco Zola, knattspyrnustjóri West Ham, var svo ánægður með fyrsta stig liðsins í sjö leikjum í ensku úrvalsdeildinni, 2:2 jafntefli við Everton á útivelli, að hann sagðist ætla að halda vel uppá það í kvöld.
Sjöunda tapið í röð blasti við þegar Yakubu kom Everton í 2:1 fimm mínútum fyrir leikslok en aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði brasilíski framherjinn Araujo Ilan metin, 2:2. Everton var búið að vinna sjö leiki í röð á heimavelli sínum, Goodison Park, fyrir þennan.
„Það hefði verið gífurlegt áfall að tapa 2:1 en liðið brást frábærlega við í lokin. Þetta var góður dagur sem gefur okkur mikið sjálfstraust, og það verður okkur mikilvægt í næstu leikjum," sagði Zola við BBC en stigið lyfti West Ham einu stigi uppfyrir Hull í fallslagnum.
„Við vorum staðráðnir í að berjast til síðustu mínútu, og menn stóðu svo sannarlega við það. Ég er mjög ánægður með mitt lið. Þegar hugarfarið er svona, er ekki eftirsjá í neinu. Þetta var stórkostlegt. Nú dett ég í það í kvöld!" sagði Zola, léttur í lund.
Zola og West Ham urðu fyrir áfalli í leiknum því miðjumaðurinn öflugi Scott Parker fékk sitt 10. gula spjald á tímabilinu og fer í tveggja leikja bann. Hann missir af leikjum við Sunderland og Liverpool.