Veikar vonir um að Wayne Roony yrði leikfær fyrir leik Manchester United gegn Bayern München annað kvöld virðast að engu orðnar eftir að hann gat ekki æft með liði United í morgun.
Rooney tognaði á ökkla í fyrri leik liðanna í München í síðustu viku en Bayern sigraði þar, 2:1, og er því með undirtökin í baráttunni um sæti í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu. Rooneys var sárt saknað úr framlínu United á laugardaginn þegar liðið tapaði, 1:2, fyrir Chelsea í toppslag liðanna í ensku úrvalsdeildinni.
Talið var að hann yrði frá í 2-3 vikur en síðustu tvo daga hafa verið uppi fregnir um að líkur væru á að Rooney gæti þrátt fyrir allt spilað gegn Bayern annað kvöld þar sem bati hans væri framar vonum.
Lið United æfði á Carrington, æfingasvæði félagsins í Manchester, í morgun en Rooney var ekki með. Hinsvegar var varnarmaðurinn John O'Shea mættur og kominn á nokkra ferð en hann hefur verið frá keppni í fimm mánuði vegna meiðsla og talið var að hann léki ekki meira á þessu tímabili.