Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að í anda páskanna hafi sínir menn risið upp frá dauðum í leiknum við Barcelona í síðustu viku, og hann vonist til þess að þeir stígi upp til himna í kvöld.
Arsenal lenti 0:2 undir á heimavelli í fyrri leiknum á Emirates-leikvanginum en náði að jafna, 2:2. Liðið á samt mjög erfitt verkefni framundan gegn Evrópumeisturunum á Camp Nou í kvöld en Wenger kveðst vera bjartsýnn.
„Mínir menn hafa einu sinni risið upp frá dauðum, og þeir geta gert það aftur. Þeim tókst að halda möguleikum sínum í keppninni á lífi, og verða að nýta tækifærið. Nú eru páskar, tími upprisunnar, og nú viljum við stíga upp til himna," sagði Wenger á fréttamannafundi í Barcelona.
Cesc Fabregas, Andrei Arshavin, William Gallas og Alex Song eru allir úr leik hjá Arsenal vegna meiðsla en hjá Barcelona er Zlatan Ibrahimovic meiddur, óvíst um Andrés Iniesta, og þeir Carles Puyol og Gerard Pique eru í leikbanni í kvöld.