Torres: Sölurnar síðasta sumar skemmdu liðið

Fernando Torres saknar þriggja leikmanna sem fóru frá Liverpool síðasta …
Fernando Torres saknar þriggja leikmanna sem fóru frá Liverpool síðasta sumar. Reuters

Fernando Torres, spænski framherjinn hjá Liverpool, segir að slakt gengi liðsins í vetur megi fyrst og fremst rekja til þess að þrír sterkir leikmenn skyldu vera látnir fara frá félaginu síðasta sumar.

Torres segir við Daily Mail í dag að það hafi reynst liðinu of þungur biti að kyngja að missa þá Xabi Alonso, Alvaro Arbeloa og Sami Hyypiä fyrir þetta tímabil.

„Eftir gott tímabil síðasta  vetur þurfti liðið á ákveðinni endurnýjun að halda, sem og að halda þeim hópi sem fyrir var, en málin þróuðust þannig að við þurftum að selja leikmenn og þá fór allt í vitleysu.

Arbeloa, Hyypiä og Alonso skildu eftir sig stór skörð. Alvaro var í þýðingarmiklu hlutverki hjá okkur, hans leikur var alltaf í háum gæðaflokki og fjölhæfni hans var liðinu dýrmæt. Sami spilaði kannski ekki alla leiki en fær 10 í einkunn fyrir allt sem hann gerði, innan vallar og utan. Svo eru leikmenn eins og Xabi afar fátíðir. Hann var mótorinn í liðinu, og þegar skipt er um mótor getur reynst erfitt að komast af stað á ný," sagði Torres.

„Við drógumst strax langt aftur úr toppliðunum, það var mikið sálfræðilegt áfall fyrir okkur sem við höfum aldrei komist yfir," sagði Fernando Torres.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert