„Þegar við hófum keppni síðasta sumar held ég að enginn hafi reiknað með því að við yrðum enn með þegar komið væri að undanúrslitunum í apríl," sagði Roy Hodgson, knattspyrnustjóri Fulham, sem sló þýsku meistarana Wolfsburg út í Evrópudeild UEFA í gærkvöld.
Fulham vann þá seinni leik liðanna sem fram fór í Þýskalandi, 1:0, og sigraði 3:1 samanlagt. Bobby Zamora skoraði markið í fyrstu sókn leiksins, eftir aðeins 21 sekúndu. Þetta var 19. markið hjá Zamora í vetur.
Þetta er aðeins í annað sinn sem Fulham tekur þátt í Evrópukeppni en liðið lék í UEFA-bikarnum 2002-03. Þá eru ekki nema 14 ár síðan félagið lék í neðstu deild í Englandi. Í útsláttarkeppninni í vetur, eftir riðlakeppnina, hefur Fulham slegið út UEFA-meistarana Shakhtar Donetsk frá Úkraínu, Juventus frá Ítalíu og nú þýsku meistarana.
„Þetta er búið að vera frábært ferðalag og við höfum farið erfiðu leiðina. Við vorum í mjög erfiðum riðli og höfum nú sigrað þrjá afar sterka andstæðinga í útsláttarkeppninni. Ég er virkilega ánægður með að þetta skyldi takast og tel að við höfum farið áfram með talsverðum stæl," sagði Hodgson við BBC.
Öll ensku liðin eru úr leik í Meistaradeild Evrópu en í Evrópudeildinni eru Fulham og Liverpool komin í undanúrslit ásamt Hamburger SV og Atlético Madrid. Fulham mætir Hamburger í undanúrslitunum og fer því aftur til Þýskalands.
„Þegar okkar bestu liðum tókst ekki að komast í undanúrslit Meistaradeildarinnar er það góð tilfinning fyrir okkur og Liverpool að vera í undanúrslitum í þessari keppni. Við eigum afar erfitt verkefni fyrir höndum, ef við ætlum okkur að fara í úrslitaleikinn. En aðalmálið er að við erum komnir í undanúrslit og eigum möguleika," sagði Hodgson.
Bobby Zamora sýndi enn frábæra takta í framlínunni hjá Fulham en mikil umræða er í Englandi um hvort hann eigi ekki að vera í HM-liði Englands í Suður-Afríku í sumar.
„Ég las að Dzeko, framherji Wolfsburg, kostaði 35 milljónir punda og miðað við það verðum við að hækka verðmiðann á Bobby Zamora. En hann er bara ekki til sölu. Ég er viss um að Fabio Capello mun meta Bobby að verðleikum þegar hann velur sitt lið. Fabio þekkir hann en Bobby getur ekki gert mikið meira en hann hefur nú þegar gert," sagði Hodgson.