Carlos Tévez, argentínski framherjinn hjá Manchester City, gagnrýnir knattspyrnustjórann Roberto Mancini fyrir æfingaálag og félag sitt fyrir að nota undirskriftina við sig til að ögra Manchester United.
Tévez sagði viðtali við Daily Mail sem birtist í netútgáfu blaðsins seint í kvöld að leikmenn City væru ekki sáttir við æfingaprógrammið hjá Mancini þessa dagana.
„Við erum komnir á lokasprettinn á löngu tímabili, eigum stórleiki framundan og erum þreyttir, en samt eru tvöfaldar æfingar, á morgnana og eftir hádegið. Svo er æft í tvo tíma daginn eftir. Ég skil þetta ekki. En hann er þjálfarinn, ég er leikmaðurinn, og hann ræður. Ég er sáttur við hann," sagði Tévez í viðtalinu.
Þegar Tévez kom til City frá United síðasta sumar, settu City-menn upp stóra auglýsingu í miðborginni þar sem stóð: Velkominn til Manchester. Þetta fór fyrir brjóstið á United-mönnum og Alex Ferguson lýsti yfir furðu sinni á þessu framferði.
Tévez er heldur ekki sáttur við þetta. „Ég skildi aldrei tilganginn með þessari auglýsingu. Hvað var málið? Var verið að bjóða mig velkominn í Manchester City eða var verið að gera Manchester United gramt í geði. Mér var aldrei sagt frá því. Þetta skiptir mig ekki máli en það er nauðsynlegt að menn viti að ég kom hvergi við sögu. Ég hefði kosið að þessu hefði verið sleppt. Ég ber virðingu fyrir öllum félögum sem ég hef spilað með. Það var ekki sýnd virðing með þessu, held ég. Ég fór ekki frá United til City til að storka neinum," sagði Tévez.
Hann var spurður um þá ákvörðun City að reka Mark Hughes í vetur og ráða Mancini í staðinn, og svaraði því til að hann hefði viljað hafa Hughes áfram.
„Eigendurnir ráða, þeir eiga félagið og peningana. En ef þú spyrð mig hvort ég telji að þetta hafi verið rétt ákvörðun, þá er svarið neikvætt. Ég er tilbúinn til að spila undir stjórn hvaða stjóra sem er. Ég spila fyrir félagið og virði rétt eigendanna til að gera breytingar, en menn b úa ekki til lið á einni nóttu. Þessi ákvörðun var tekin í of miklum flýti. Hugsuðu stjórnarmennirnir málið til enda? Það er ekki hægt að setja alla þessa peninga í félagið og reka svo stjórann eftir fimm mánuði. Mark fékk okkur alla til félagsins. Hann er frábær stjóri og ég er 100 prósent viss um að hann kemst að hjá öðru stórliði," sagði Tévez.
Manchesterliðin tvö mætast í úrvalsdeildinni um næstu helgi og samkvæmt The Guardian höfðu City-menn beðið Tévez um að tjá sig ekkert við fjölmiðla fyrir leikinn, vegna ummæla hans í garð Gary Neville í kringum leiki liðanna í deildabikarnum í janúar.