Coyle: Vorum rændir tveimur vítaspyrnum

Owen Coyle ræðir við dómara leiksins eftir leikinn við Chelsea …
Owen Coyle ræðir við dómara leiksins eftir leikinn við Chelsea í gærkvöld. Reuters

Owen Coyle knattspyrnustjóri Bolton segir að lið sitt hafi verið rænt tveimur vítaspyrnum í leiknum gegn Chelsea á Stamford Bridge í gær þar sem Chelsea hafði betur, 1:0, og náði með sigrinum fjögurra stiga forskoti á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

,,Við þurftum ekki á neinni heppni að halda. Við þurftum aðeins að hafa dómara sem tók rétta ákvörðun. Það voru tvær augljósar vítaspyrnur sem við áttum að fá en við vorum rændir þeim. Þá fyrri á 27 mínútu þegar Drogba tók boltann með hendinni.

Ég veit að Drogba er heimsklassa leikmaður en hann gæti leikið heimsklassa blak fyrir hvaða lið sem er miðað við sem maður sá til hans í þessu atviki. Seinni vítaspyrnan var þegar Terry handlék boltann. Aðstoðardómarin sagði að boltinn hefði farið í öxl hans en þetta var ekkert annað en víti,“ sagði Coyle.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert