Tottenham lagði Arsenal að velli

Gareth Bale fagnar eftir að hafa komið Tottenham í 2:0.
Gareth Bale fagnar eftir að hafa komið Tottenham í 2:0. Reuters

Tottenham sigraði Arsenal, 2:1, í grannaslag í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og gerði með því nánast út um vonir Arsenal um að vinna enska meistaratitilinn.

Nítján ára nýliði, Danny Rose, og Gareth Bale komu Tottenham í 2:0 en Nicklas Bendtner minnkaði muninn fyrir Arsenal undir lokin. Eiður Smári Guðjohnsen lék síðustu 25 mínúturnar með Tottenham.

Arsenal er áfram í þriðja sætinu með 71 stig og er fimm stigum á eftir toppliði Chelsea og tveimur á eftir Manchester United þegar  fjórum umferðum er ólokið.

Tottenham er áfram í fimmta sætinu en er nú komið með 61 stig. Manchester City er í hinu eftirsótta fjórða sæti með 62 stig.

Þetta gerðist í leiknum á White Hart Lane í kvöld:

90. Flautað af eftir fjórar mínútur í uppbótartíma og mikla spennu. Tottenham sigrar, 2:1, sætur sigur á erkifjendunum í Norður-London.

85. Stórsókn Arsenal ber loks árangur, Nicklas Bendtner skorar af stuttu færi eftir sendingu Theos Walcotts frá hægri, 2:1.

84. Gomes markvörður er í aðalhlutverki há Tottenham. Fyrst ver hann vel aukaspyrnu frá van Persie og síðan slær hann í þverslá eftir skalla frá Abou Diaby.

82. Robin van Persie með glæsileg tilþrif í vítateig Tottenham en Heurelho Gomes markvörður ver skot hans einnig með tilþrifum.

69. Eiður Smári fær dauðafæri innan við mínútu eftir að hann kom inná hjá Tottenham. Hann hittir boltann illa rétt innan vítateigs eftir góða sókn Tottenham.

68. Robin van Persie kemur inná hjá Arsenal, fyrir Denilson, og spilar sinn fyrsta leik síðan hann meiddist í nóvember.

68. Eiður Smári Guðjohnsen kemur inná sem varamaður hjá Tottenham, fyrir Jermain Defoe.

47. Tottenham er komið í vænlega stöðu því Gareth Bale skoraði strax í byrjun síðari hálfleiks, 2:0, eftir sendingu frá Jermain Defoe innfyrir vörn Arsenal.

45. Hálfleikur á White Hart Lane og Tottenham er yfir, 1:0. Arsenal hefur sótt mjög stíft á köflum en Tottenham hinsvegar fengið góð færi til að auka við forystuna.

20. Áfall hjá Arsenal sem missir miðvörðinn Thomas Vermaelen meiddan af velli. Mikael Silvestre kemur í hans stað og leikur við hliðina á Sol Campbell í vörninni.

10. Nýliðinn Danny Rose skorar fyrir Tottenham og kemur liðinu yfir, 1:0. Stórglæsilegt skot af um 25 metra færi eftir að Manuel Almunia markvörður Arsenal sló  boltann frá marki sínu.

Eiður Smári Guðjohnsen var varamaður hjá Tottenham í kvöld en byrjunarliðin voru þannig skipuð:

Tottenham: Gomes; Kaboul, Dawson, King, Assou-Ekotto; Rose, Huddlestone, Modric, Bale; Defoe, Pavlyuchenko.
Varamenn: Alnwick, Bassong, K Walker, Bentley, Livermore, Crouch, Eiður Smári.

Arsenal: Almunia, Sagna, Campbell, Vermaelen, Clichy, Eboue, Diaby, Denilson, Rosicky, Bendtner, Nasri.
Varamenn: Fabianski, Eduardo, van Persie, Walcott, Silvestre, Merida, Eastmond.

Danny Rose fagnar ásamt Benoit Assou-Ekotto eftir að hafa komið …
Danny Rose fagnar ásamt Benoit Assou-Ekotto eftir að hafa komið Tottenham yfir í leiknum í kvöld. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert