Rafael Benítez verður knattspyrnustjóri Liverpool til ársins 2014, að öllu óbreyttu, samkvæmt því sem umboðsmaður Spánverjans sagði í dag.
Mikið hefur verið rætt um framtíð Benítez hjá Liverpool vegna slæms gengis liðsins í vetur. M.a. hefur verið látið að því liggja að samningur hans við félagið sé þess eðlis að það hafi ekki efni á að segja honum upp.
„Benítez stefnir á að standa við samninginn sem er til ársins 2014, en vissulega er félagið háð sveiflum í fjárhagslegri stöðu sinni. Fjárhagurinn gæti haft áhrif á framtíð félagsins, og þar með á hans framtíð líka," sagði umboðsmaðurinn, Manuel Garcia Quilon, við spænska íþróttadagblaðið AS í dag.
Liverpool skuldar 237 milljónir punda og á að greiða 100 milljónir af því á þessu ári. Eigendurnir, Tom Hicks og George Gillett, eru sagðir tilbúinir til að selja félagið fyrir um 500 milljónir punda.
Quilon sagði að hann vissi um kínverska fjárfesta sem hefðu áhuga á að kaupa félagið og hafa Benítez áfram í starfi knattspyrnustjóra.
„Þeir hafa hringt í Rafa og sagt honum að skilyrði sem þeir setja fyrir því að kaupa félagið sé að hann verði áfram í starfi sem knattspyrnustjóri," sagði umboðsmaðurinn.