Eldgosið í Eyjafjallajökli hefur komið í veg fyrir að Fernando Torres, framherji Liverpool, komist til Barcelona þar sem sérfræðingurinn Ramon Cugat ætlaði að skoða betur hjámeiðslin sem Spánverjinn glímir við.
Cugat kvaðst í gær bjartsýnn á að Torres yrði leikfær fyrir leik Liverpool gegn Atlético Madrid, hans gamla félagi, í undanúrslitum Evrópudeildar UEFA næsta fimmtudag. Hann ætlaði að skoða Torres betur í dag en allt flug frá Bretlandseyjum liggur niðri vegna gossins.
„Við verðum að bíða og sjá, það eru vandamál með flugið og því verður hann áfram í meðferð hjá okkur. Hann verður væntanlega að hitta annan sérfræðing og vonandi verður allt í lagi. En það hefði verið betra að hitta þann sem gerði aðgerðina á honum," sagði Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool á fréttamannafundi í dag.