Ævintýralegur sigur Wigan á Arsenal

Maynor Figueroa hjá Wigan og Abou Diaby hjá Arsenal eigast …
Maynor Figueroa hjá Wigan og Abou Diaby hjá Arsenal eigast við í leiknum í dag. Reuters

Wigan skoraði þrjú mörk á síðustu tíu mínútunum og vann ævintýralegan sigur á Arsenal, 3:2, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á DW-leikvanginum í Wigan í dag.

Með þessum úrslitum má segja að meistaravonir Arsenal séu endanlega úr sögunni. Liðið stefndi í öruggan sigur, með 2:0 forystu þegar 10 mínútur voru eftir af leiknum, og hefði þá verið aðeins þremur stigum á eftir Chelsea og tveimur á eftir Manchester United.

Arsenal er sem fyrr í þriðja sæti með 71 stig, sex stigum á eftir Chelsea, sem er með 77 stig, og Manchester United, sem er með 76 stig. Liðin eiga eftir þrjá leiki hvert.

Wigan er komið í 15. sæti með 35 stig, sjö stigum frá fallsæti, og er því nánast búið að tryggja sér áframhaldandi sæti í deildinni.

Arsenal náði forystunni á 41. mínútu. Theo Walcott fékk sendingu í gegnum miðja vörn Wigan frá Nicklas Bendtner og skoraði af harðfylgi, 0:1. Þannig var staðan þegar flautað var til hálfleiks.

Arsenal hóf seinni hálfleik af krafti og Abou Diaby fór illa með dauðafæri strax í byrjun. En á 48. mínútu var komið að varnarjaxlinum Mikael Silvestre sem skorar ekki á hverju ári. Hann skallaði boltann í mark Wigan eftir hornspyrnu, 0:2.

Ben Watson minnkaði muninn í 1:2 á 79. mínútu eftir sendingu frá Victor Moses.

Og á 87. mínútu jafnaði varnarjaxlinn Titus Bramble, 2:2, með skalla eftir hornspyrnu, þegar Lukasz Fabianski markvörður Arsenal náði ekki að góma boltann í markteignum.

Þegar uppbótartími var að hefjast kom svo náðarhöggið fyrir Arsenal. Charles N'Zogbia skoraði sigurmarki Wigan, 3:2, með glæsilegu skoti í stöng og inn.

Wigan: Kirkland, Melchiot, Gohouri, Bramble, Figueroa, N’Zogbia, McCarthy, Watson, Diame, Rodallega, Moreno.
Varamenn: Stojkovic, Boyce, Scharner, Moses, Gomez, Sinclair, Scotland.

Arsenal: Fabianski, Sagna, Campbell, Silvestre, Clichy, Eastmond, Rosický, Nasri, Diaby, Walcott, Bendtner.
Varamenn: Mannone, Traore, Eboue, Merida, Henderson, van Persie, Vela.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert